TM styrkir hjartadeild Landspítala
Samtök fjármálafyrirtækja, fyrir hönd vátryggingafélaganna TM, Sjóvár, VÍS og Varðar, munu styrkja hjartadeild Landspítala um 18 milljónir króna á næstu þremur árum.
Hjarta- og æðasjúkdómar eru helsta dánarorsök Íslendinga og því er þetta framlag vátryggingafélaganna mikilvægt og styður hjartadeild Landspítala til nýsköpunar í þjónustu við sjúklinga. Margir hjartasjúkdómar eru ekki síst afleiðing af óheilbrigðum lífstíl eins og hreyfingarleysi, óhollu mataræði, reykingum og skertum svefngæðum. Lífstílsbreytingar gegna mikilvægu hlutverki í að snúa þessari þróun við en rannsóknir sýna að til að breyta um lífstíl þarf mun meiri stuðning og eftirfylgni en hefðbundin heilbrigðisþjónusta veitir í dag.
Hjartadeild Landspítala og heilbrigðistæknifyritækið Sidekick Health hafa unnið að þróun smáforrits sem gerir kleift að fylgjast með sjúklingum í gegnum fjarvöktun og styðja þá til heilbrigðari lífshátta með myndböndum og hvatningarskilaboðum. Markmiðið er að veita betri þjónustu, draga úr álagi á heilbrigðiskerfið og auka virkni hefðbundinna heilbrigðismeðferða með því að styðja mun betur við sjúklinga varðandi lífstílsbreytingar. Verið er að rannsaka þessa nálgun hjá sjúklingum með þrjá algenga hjartasjúkdómana, hjartabilun, kransæðasjúkdóm og gáttatif og er fyrstu niðurstaðna að vænta snemma á næsta ári.
Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja
„Í síbreytilegu og hröðu umhverfi okkar eykst mikilvægi fræðslu og forvarna sífellt og hafa vátryggingafélögin gegnt þar mikilvægu hlutverki lengi. Það er ánægjulegt að tryggingafélögin haldi áfram að styrkja hjartadeild og geri henni þannig kleift að halda áfram að þróa og innleiða tæknilausnir sem nýtast við þjónustu hjartasjúklinga. Hjarta- og æðasjúkdómar eru helstu dánarorsakir Íslendinga og hægt er að draga úr áhættu með því að aðstoða sjúklinga við að breyta lífstíl sínum með stuðningi og eftirfylgni sem og efla forvarnir.“
Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala
„Þetta er mjög mikilvægur styrkur og gerir okkur kleift að halda áfram að þróa og rannsaka nýjar og áhugaverðar leiðir til að efla þjónustuna við hjartasjúklinga. Við leggjum sömuleiðis mikla áherslu á að leita framsækinna leiða við heilsueflandi aðgerðir á komandi árum. Það er trú okkar að nýjar stafrænar lausnir, aukin nýting erfðaupplýsinga og betri nýting heilbrigðisgagna hafi burði til að valda straumhvörfum í því hvernig við veitum heilbrigðisþjónustu.“
Bylgja Kærnested, deildarstjóri hjartadeildar Landspítala
„Auk þess að efla þjónustu við hjartasjúklinga eru með þessum styrk sköpuð mikilvæg tækifæri til að bæta aðstöðu á deildinni enn frekar svo og efla starfsþróun hjá þeim sem starfa á hjartadeild. Það er afar mikilvægt þegar gríðarleg samkeppni er um heilbrigðisstarfsfólk, ekki síst hjúkrunarfræðinga.“