TM mótið í Eyjum
TM hefur í mörg ár styrkt barna- og unglingastarf íþróttahreyfinga og um næstu helgi fer fram TM mótið í Eyjum í knattspyrnu. Á mótinu keppa stelpur úr 5. flokki og er þetta eitt stærsta mót sumarsins ár hvert. TM hefur verið stoltur styrktaraðili mótsins til fjölda ára en mótið var fyrst haldið árið 1990. Margar af bestu knattspyrnukonum landsins hafa því tekið þátt á TM mótinu á sínum yngri árum og má gera ráð fyrir að framtíðarlandsliðsstelpur muni láta ljós sitt skína í ár.
Það er von á rúmlega 1.100 stelpum til Eyja frá 35 félögum. 116 lið munu spila á mótinu á 16 völlum og verða 580 leikir spilaðir. 85 dómarar munu dæma leikina. Það má svo ekki gleyma þeim fjölda sjálfboðaliða sem munu leggja hönd á plóg til að svona knattspyrnumót geti farið fram.
Starfsfólk TM óskar þátttakendum og forráðamönnum góðrar skemmtunar á íþróttamótum í sumar.