Staðlað upplýsingaskjal um vátryggingu
Í þessu skjali finnur þú allar helstu upplýsingar um trygginguna. Vakin er athygli á því að atriði sem talin eru upp hér fyrir neðan eru ekki tæmandi listar heldur algeng og lýsandi atriði sett fram í þeim tilgangi að gefa þér góða mynd af tryggingunni í stuttu máli. Nákvæmari upplýsingar er að finna í skilmálum tryggingarinnar. Nýjustu skilmála og frekari upplýsingar um trygginguna finnur þú á tm.is og í TM appinu. Ef þú kaupir trygginguna færðu skírteini og þá skilmála sem gilda í þínu tilviki og getur þar séð nákvæmlega hvernig tryggingavernd þinni er háttað. Þú getur alltaf nálgast yfirlit yfir þínar tryggingar og iðgjöld í TM appinu.
Hvernig trygging er brunatrygging?
Brunatrygging er lögboðin trygging sem bætir tjón á húseigninni þinni ásamt hefðbundnum fylgihlutum hennar vegna eldsvoða. Mikilvægt er að láta endurmeta brunabótamat eignarinnar ef endurbætur eða viðbyggingar hafa átt sér stað þar sem tryggingin greiðir aðeins bætur í samræmi við mat Þjóðskrár Íslands.
Hvað bætir tryggingin?
- Tjón vegna eldsvoða, eldinga, sótfalls eða sprenginga.
- Tjón af völdum loftfars.
- Kostnaður vegna slökkvi- og björgunaraðgerða, niðurrifs eða annarra réttmætra aðgerða til að afstýra eða draga úr tjóni.
Hvað bætir tryggingin ekki?
- Tjón á innbúi.
- Óbeint tjón svo sem rekstrartap eða tap húsaleigutekna.
- Tjón vegna elds sem er ekki eldsvoði, svo sem tjón á munum sem verða fyrir eldi eða hita við suðu, upphitun eða reykingu.
Eru einhverjar sérstakar takmarkanir?
Tryggingafjárhæðin takmarkast við brunabótamat.
Hvar gildir tryggingin?
- Á þeim stað sem tilgreindur er í skírteini við útgáfu og endurnýjun tryggingarinnar.
Hverjar eru mínar skyldur?
- Sjá til þess að allur umbúnaður á og við húseignina sé í samræmi við fyrirmæli í gildandi lögum og reglugerðum.
- Bæta úr vanbúnaði á húseign eftir athugasemdum frá TM og opinberum eftirlitsstofnunum, til dæmis Brunamálastofnun, Neytendastofu, eldvarnareftirliti eða byggingaryfirvöldum sveitarfélaga.
- Tilkynna þarf um allar breytingar sem gerðar eru á húseigninni sem geta haft í för með sér aukna áhættu á tjóni.
Hvenær og hvernig greiði ég fyrir trygginguna?
Almennt er hægt að velja um nokkrar leiðir til að greiða fyrir trygginguna, þ.e. í einu lagi við útgáfu og hverja endurnýjun, með greiðsludreifingu í netbanka eða með kreditkorti.
Iðgjöld fyrir trygginguna hvíla sem lögveð á húseigninni og ganga í tvö ár fyrir öllum öðrum skuldbindingum sem á henni hvíla nema sköttum til ríkissjóðs.
Hvenær tekur tryggingin gildi og hvenær lýkur henni?
Tryggingin gildir almennt í 12 mánuði frá því tímamarki sem getið er í skírteini og endurnýjast sjálfkrafa sé henni ekki sagt upp á því tímabili.
Hvernig segi ég tryggingunni upp?
- Almennt er hægt að segja tryggingunni upp hvenær sem er á tryggingartímabilinu með skriflegri uppsögn ef þú færir þig til annars tryggingafélags eða hefur ekki lengur þörf fyrir hana. Iðgjald er þó greitt fyrir þann hluta tímabilsins sem tryggingin var í gildi.
- Þar sem tryggingin er lögboðin er uppsögn ekki gild nema að með henni fylgi staðfesting á því að þú hafir stofnað til nýrrar tryggingar hjá öðru tryggingafélagi.