Ábend­ingar og kvart­anir

Ábend­ingar og kvart­anir

Meðferð kvartana og réttarúrræði viðskiptavina

TM reynir ávallt að hafa það að leiðarljósi að starfsemi félagsins sé í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Stór hluti þessa er að bregðast fljótt og vel við ábendingum og kvörtunum sem kunna að berast frá okkar viðskiptavinum.

TM hefur sett sér stefnu og reglur um meðferð kvartana en tilgangur þeirra er að tryggja að ferli við úrvinnslu kvartana viðskiptavina TM sé sanngjarnt, gagnsætt og að úrvinnslu- og svartími mála sé eins skammur og kostur er. Þá er tilgangur reglnanna einnig að koma í veg fyrir að mistök starfsmanna eða brot á lögum og reglum endurtaki sig.

Hafi viðskiptavinur einhverjar ábendingar eða kvartanir, t.d. um óánægju með þjónustu TM, afgreiðslu mála eða hvernig staðið hefur verið að viðskiptasambandi, getur hann beint kvörtun til viðkomandi starfsmanns, með skriflegum hætti til regluvörslu TM eða með tölvupósti á netfangið kvortun@tm.is.

Til að unnt sé að taka afstöðu til kvörtunar með skjótum og öruggum hætti er nauðsynlegt að viðskiptavinur gefi upp kennitölu sína svo auðkenna megi hann og vinna úr kvörtun svo og að gefnar séu sem skýrastar upplýsingar um efni kvörtunar.

Nánari upplýsingar um meðhöndlun kvartana má finna hér.

 

Réttarúrræði viðskiptavina

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum

Undir starfssvið nefndarinnar heyra mál sem varða réttarágreining um vátryggingarsamninga eða annan ágreining sem lýtur að dreifingu vátrygginga eða vátryggingastarfsemi að öðru leyti.  Málskot til nefndarinnar skal afhent nefndinni á sérstöku eyðublaði sem m.a. má nálgast á heimasíðu nefndarinnar og senda með tölvupósti á tryggingar@nefndir.is

Nánari upplýsingar um málsmeðferð, samþykktir hennar, málskotsgjald o.fl. má nálgast á heimasíðu nefndarinnar.

Upplýsinga- og leiðbeiningaþjónusta Fjármálaeftirlitsins

Fjármálaeftirlitið leiðbeinir viðskiptavinum eftirlitsskyldra aðila. Í því felst að leitast er við að leiðbeina aðilum um þau úrræði sem þeir hafa til að ná fram rétti sínum, m.a. hvaða aðilar fari með úrskurðarvald í þeirra málum og aðrar almennar leiðbeiningar. Sjá nánar á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.

Neytendastofa

Neytendastofa er ein þeirra eftirlitsstofnana sem hafa eftirlit með viðskiptalífinu og  lögum frá Alþingi sem sett eru vegna öryggis og réttinda neytenda. Á heimasíðu Neytendastofu er m.a. unnt að nálgast upplýsingar um það í hvaða tilvikum og með hvaða hætti neytendur geta leitað til stofnunarinnar, telji þeir að réttur sé á þeim brotinn.

Dómstólar

Aðilar geta leitað réttar síns fyrir almennum dómstólum hafi ágreiningsefnið ekki verið undanþegið lögsögu þeirra með lögum eða samningi.